Hver er vandinn?

VerkefniAndleg vanlíðan sem oft er fylgifiskur langvinnra veikinda og slysa getur haft hamlandi áhrif á framgang endurhæfingar. Hjá sumum skjólstæðingum er andleg vanlíðan svo sem kvíði og þunglyndi aðalástæða þess að þeir þurfa á endurhæfingu að halda. Hjá öðrum eru sálræn einkenni afleiðingar heilsuvanda, langvinnra verkja, offituvandamála eða þeirrar aðstöðu sem þeir búa við. Í endurhæfingu er mjög mikilvægt í því ferli að styðja einstaklinginn til sjálfsbjargar og betri lífsgæða.

Ástæður komu til sálfræðings geta verið mjög mismunandi, til dæmis tilfinningaleg vandamál svo sem þunglyndi og kvíði, streita eða áföll, reiðivandamál, tilfinningasveiflur eða erfiðleikar í samskiptum. Margir þurfa sálfræðistuðning vegna lífsstílsbreytinga eða baráttu við átraskanir. Aðrir eru að glíma við atvinnumissi eða þurfa að breyta um atvinnuvettvang vegna slysa eða veikinda. Einnig upplifa margir óöryggi og andlega vanlíðan vegna þess að þeir eru að takast á við langvinna verki eða hafa greinst með alvarlega sjúkdóma.

Einbeitingarerfiðleikar, námserfiðleikar, minnistruflanir, heilaskaði eða önnur vitræn skerðing eru einnig oft ástæður þess að beðið er um mat sálfræðings og endurhæfingu.

Yfirleitt er um fjölkvilla að ræða og oft glímir fólk einnig við erfiða félagslega stöðu.