Endurhæfing

Oftast fer fram matsviðtal á göngudeild áður en til innskriftar kemur.

Þeir sem átt hafa við vímuefnavanda að etja þurfa að vera án vímuefna í að minnsta kosti hálft ár fyrir komu og hafa unnið að heilbrigðu og vímuefnalausu lífi. Sama gildir um misnotkun lyfja.

Við innskrift á geðheilsuteymi verður til þverfaglegt teymi kringum einstaklinginn, í því eru alltaf læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi og oft heilsuþjálfari, sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Hægt er að leita til næringarráðgjafa, taugasálfræðings og talmeinafræðings þegar þörf krefur.

Fljótlega eftir komu er gerð stundaskrá yfir endurhæfingarprógrammið, sem viðkomandi ber sjálfur ábyrgð á að fylgja eftir.

Haldnir eru markmiðsfundir til að meta gang endurhæfingarinnar, undirbúa útskrift o.fl.

Endurhæfingin er sniðin að þörfum hvers og eins og því nokkuð mismunandi milli einstaklinga.

Allir fá reglubundin viðtöl, sem geta verið stuðningsviðtöl, hugræn atferlismeðferð eða annað. Að höfðu samráði metur starfsfólk teymisins í hverju tilviki hvað á best við.

Allir fá mat sjúkraþjálfara í upphafi dvalar. Þegar þörf krefur er möguleiki á að fá sérhæfða sjúkraþjálfun en almenn líkamsrækt er veigamikill þáttur í endurhæfingunni s.s. ganga, sund, leikfimi, tækjasalur, vatnsleikfimi o.fl.

Iðjuþjálfar meta hvort þörf sé á einstaklingsmiðaðri aðstoð til að bæta færni til athafna daglegs lífs o.fl. en bjóða að auki upp á bæði námskeið og hópastarf s.s. félags- og tómstundahóp.

Sjálfsstyrkingarhópur hefur það markmið að efla sjálfsmyndina og bæta færni til félagslegra samskipta. Valið er í þennan hóp af meðferðaraðilum teymisins, en hann er tvisvar í viku í þrjár vikur í senn.

Gert er ráð fyrir að eftirfylgd eftir útskrift sé að jafnaði í höndum tilvísunaraðila eða annarra sem komið hafa að málinu áður. Boðið er upp á viðtal í göngudeild nokkrum vikum eftir útskrift eða í vissum tilvikum upp á eftirfylgd í hóp, sem gengur út á að viðhalda bata með núvitundaræfingum.