Streitustjórnun
Iðjuþjálfar hafa umsjón með námskeiði í streitustjórnun. Markmið námskeiðsins er að fræða þátttakendur um streitu og hvernig hún hefur áhrif á daglegt líf. Áhersla er lögð á sjálfsskoðun, þ.e. að einstaklingurinn verði meðvitaðri um helstu streituvalda og streitueinkenni. Þannig getur hann áttað sig á hverju hann þarf og vill breyta hjá sjálfum sér og í umhverfinu til að draga úr streitu og stuðla þar með að bættri heilsu og auknu jafnvægi í daglegu lífi. Á námskeiðinu er farið í mikilvægi slökunar og þátttakendur fá að kynnast og æfa fjórar mismunandi aðferðir við slökun.
Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur og er samtals 7 kennslustundir. Miðað er við að 8 einstaklingar sitji hvert námskeið.
Í fyrirlestrum er fjallað m.a. um: Streitu almennt, lifnaðarhætti, hugsanir og tilfinningar, tjáskipti, samskipti og tengsl, ákveðni, markmiðssetningu, skipulag og jafnvægi í daglegu lífi og tímastjórnun.
Námskeiðið hefur verið mjög eftirsótt, enda streitustjórnun mikilvægur þáttur í endurhæfingu einstaklinga í nútíma þjóðfélagi.
Jafnvægi í daglegu lífi
Að það sé samræmi á milli styrks okkar og þeirra krafna sem við og aðrir gera til okkar.
Dæmi um leiðir að jafnvægi í daglegu lífi
- Forgangsraða verkefnum
- Setja sér raunhæf markmið
- Gefa sér tíma fyrir slökun
- Ekki reyna að vera öllum allt
- Gefa sér tækifæri
- Læra að segja „nei“
- Vera ávallt besti vinur þinn
- Njóta gleðinnar í lífinu