Slökun

Hvað er slökun?

Slökun er ástand nokkurn veginn á milli svefns og vöku, þar getur úrvinnsla hugans átt sér stað sem er líklegt til að bæta nætursvefn. Slökun er andstæða streitu og leiðir til hjöðnunar á streituástandi. Jákvæð áhrif slökunar eru; minni spenna og kvíði, aukið jafnvægi og viðnám gegn streitu, aukinn einbeitingarhæfileiki, betri heilsa og bætt mannleg samskipti. Slökun gefur hvíld, frið og endurnæringu. Með slökun er einnig hægt að efla jákvæða þætti í fari einstaklingsins, sem er ekki síður mikilvægt þar sem margir eru fastir í neikvæðu hugsunarferli. (Landlæknir)

Slökun
Regluleg slökun
  • sparar orku
  • dregur úr þreytu
  • skapar vellíðan
  • dregur úr kvíða
  • dregur úr spennu
Slökun er mikilvæg til að læra að hvílast, vinna á móti svefnleysi, kvíða, áhyggjum, verkjum og ýmis konar streitu. Slökun er tækni sem gerir einstaklingnum kleift að róa hugann, slaka á vöðvum líkamans og dregur þannig úr kvíða og spennu. Slökun getur verið hluti af daglegu lífi, daglegum venjum á sama hátt og að hreyfa sig en mikilvægt er að gefa slökun tíma, taka tímann frá og virða hann. Með slökun má halda grunnspennunni í skefjum og þannig er einstaklingurinn betur í stakk búin til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs.