Sagan á Reykjalundi

Fyrsti iðjuþjálfinn, Sigríður Loftsdóttir, hóf störf á Reykjalundi árið 1974, var hún á þeim tíma ein af 8 starfandi iðjuþjálfum á landinu. Ári síðar bættust við 2 iðjuþjálfar, þær Guðrún Pálmadóttir og Anne Grethe Hansen. Næstu árin fjölgaði frumkvöðlum, meðal þeirra voru Ingibjörg Pétursdóttir, Kristjana Fenger, Margrét Sigurðardóttir og Sigríður Jónsdóttir.

Iðjuþjálfadeildin flytur 1982 á þann stað sem hún er í dag og var endurhönnuð og stækkuð í núverandi mynd árið 2013. Árið 2021 starfa 18 iðjuþjálfar og 3 aðstoðarmenn á deildinni og tengjast öllum teymum Reykjalundar.

Námsbraut í iðjuþjálfunarfræðum var stofnuð 1997 við Háskólann á Akureyri. Iðjuþjálfar á Reykjalundi tóku þátt í undirbúningi og fóru meðal annars þrír iðjuþjálfar í meistaranám til Florida University með það markmið að kenna við brautina. Reykjalundur sinnir kennslu og vettvangsnámi nemenda.

Iðjuþjálfadeildin hefur tekið þátt í rannsóknum sem dæmi rannsókn á „upplifun og reynslu skjólstæðinga af iðjuþjálfun á endurhæfingarstofnunum”. Einnig komið að þýðingu, þróun og prófun á iðjuþjálfamatstækjum, þar má nefna „Viðtal um starfshlutverk“ (WRI), „Mæling á færni við iðju” (COPM), „Mat á eigin iðju”(OSA) og „Mat á framkvæmd vinnu“ (AWP).