Íhlutun

Við upphaf íhlutunar

Er farið yfir þau viðfangsefni sem skjólstæðingurinn fæst við í sínu daglega lífi, m.t.t. hver ganga vel, hver valda erfiðleikum og hverjum er ekki sinnt þrátt fyrir að skjólstæðingurinn vilji sinna þeim. Ýmis matstæki eru notuð til fá yfirsýn og gera íhlutunaráætlun út frá. Aðferðir íhlutunar eru ýmis konar og ákvarðast ávallt í samráði við skjólstæðinginn og tengist þeirri iðju sem hann vill viðhalda og/eða bæta.

Dæmi um íhlutun eru
  • Vinna: Fer fram á verkstæði iðjuþjálfunardeildar þar sem einstaklingurinn fær tækifæri til að vinna/leysa verkefni á sinn máta, leiðrétta vinnustöður, skoða vinnulag, starfshæfni, úthald og örva sköpun.
  • Tómstundir: Einstaklingurinn fær tækifæri til að átta sig á eigin áhugasviði, velja sér tómstundaiðju og skipuleggja tómstundir sínar.
  • Fræðsla um liðvernd og orkusparandi vinnuaðferðir og aðstoð við skipulagningu á daglegri iðju, þannig að draga megi úr óþarfa álagi og nýta starfsorkuna sem best.
  • Fræðsla í verkjaskóla og á námskeiði um streitustjórnun
  • Handarþjálfun sem miðar að því að viðhalda vöðvastyrk, liðleika og fínhreyfingum handa og vinna gegn kreppum og aflögun liða.
  • Hjálpartæki: Gefið er tækifæri til að kynnast og prófa ýmis hjálpartæki og spelkur, sem m.a. fyrirbyggja óæskilegt álag á liði og auðvelda daglegt líf. Ef þörf krefur er sótt um styrk til Sjúkratrygginga Íslands til kaupa á þessum hlutum.
  • Íhlutun í nærumhverfi: Ef þörf er á að bæta og aðlaga umhverfið heima eða á vinnustað sinna iðjuþjálfar því.