03.03.2015

„Hjálp til sjálfshjálpar“ - námskeið fyrir fagfólk

Starfsfólk geðheilsusviðs Reykjalundar heldur eins dags námskeið fyrir fagfólk föstudaginn 20. mars. Farið er yfir þær aðferðir sem kenndar eru í HAM-bók Reykjalundar (HAM: Handbók um hugræna atferlismeðferð) og hafa reynst hjálplegar við vægu og meðaldjúpu þunglyndi. Ýmsir fagaðilar s.s. í velferðar- og menntakerfinu, geta nýtt innihald bókarinnar við að styðja einstaklinga til betra lífs. Á námskeiðinu er aðallega unnið með virkni og neikvæðar hugsanir. Auk þess nýtist þessi nálgun til að koma á reglu og jafnvægi í daglegu lífi s.s. á svefn, næringu og hreyfingu. Þessir þættir skipta allir verulegu máli fyrir almenna líðan, til að fyrirbyggja geðrænan vanda og viðhalda bata.

Bókin getur nýst sem tæki til sjálfshjálpar með eða án stuðnings fagaðila, en líka sem meðferðarhandbók með sérhæfðum meðferðaraðila. Á veraldarvefnum má nálgast textann og verkefnin, bæði á ritformi og hljóðskrám, sem hlaða má niður og flytja á önnur tæki, s.s. MP3-spilara. Vefútgáfan er ekki síst hugsuð fyrir lesblinda, en hægt er að stækka letrið og setja inn litaðan bakgrunn, auk hljóðskránna. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu eru á heimasíðunni.

Til baka